Lífið í Naustabryggjunni

Tuesday, November 28, 2006

Ný síða fyrir Litla kút


Vegna áskorunar frá litlu systur minni um að blogga lét ég slag standa. Margt hefur nú gerst síðan að bloggað var hér síðan. Litli kúturinn er orðinn rosalega stór og var rúmir 70 cm og 8 kg í 5 mánaða skoðun.

Kíkið á síðuna hans á Barnanetinu hlekkurinn er hér til hliðar.

Annars er ég farin að hlakka mjög mikið til jólanna en meira um það seinna.

Wednesday, July 12, 2006

Daði Berg

Drengurinn minn var nefndur 17. júní og heitir Daði Berg. Annars var hann 1. mánaðar gamall í gær 11. júlí og hefur að mínu mati stækkað mjög mikið. Allt gengur mjög vel og ótrúlegt hvað tíminn er búinn að vera fljótur að líða. Verst að veðrið er ekki búið að vera betra þannig að við gætum verið meira úti en Daði er nefnilega búinn að vera smá kvefaður og ég vil ekki hætta á að hann verði veikur. Hvað er annars með þetta sumar ætlar það ekkert að fara að láta á sér bera að einhverjum krafti?

Wednesday, June 14, 2006

Drengurinn fæddur

Á sjómannadaginn 11. júní kl. 3.05 fæddist drengurinn. 16 merkur og 52,5 cm.


Saturday, May 27, 2006

Hvernig leggjast kosningarnar í þig?


Þá er runninn upp sá dagur sem margir hafa beðið eftir óþreyjufullir, sjálfur kosningadagurinn. Það sem er eflaust best við þennan dag er að núna verður póstkasssinn ekki yfirfullur af kosningaráróðrir ásamt því að símtölum mun eflaust fækka í Naustabryggjuna.
Að undanförnu þegar að póstkassinn hefur verið opnaður hafa nefnilega hrunið út úr honum bæklingar um hvað hver ætli að gera á næstu fjórum árum og þegar símanum hefur verið svarað er ósjaldan á hinum endanum einhver frá flokkunum að spyrja hvernig kosningarnar leggist í mann eða þá einhver sem er að framkvæma könnum á fylgi flokkanna.
Það er samt ótrúlegt hvað tímarnir breytast fljótt. Eftir að hafa fengið símtal varðandi kosningarnar um daginn varð mér hugsað til fyrstu kosninganna sem ég man eitthvað eftir. Það var á Flateyri og voru eflaust sveitarstjórnarkosningar þegar ég var 9 ára. Þarna var um hatramma baráttu grunnskólakrakka að ræða sem skiptust í tvær fylkingar, eina bláa og aðra rauða allt eftir því hvar foreldrara þeirra stóðu í þessum efnum. Ekkert var farið leynt með hvar hver stóð og bárum við barmmerki um stöðu okkar. Ekki man ég þó eftir að einhver barátta hafi verið áfram eftir að kosningum lauk.
Hvort að stemmningin sé ennþá svona út á landi veit ég ekki. Ég hef a.m.k. ekki séð eða heyrt af neinni kosningarbaráttu meðal grunnskólanemenda í borginni. Spurningin er því hvort að kosningarnaráróður í dag sé eins áhrifaríkur og fyrir 16 árum? Ég get fullyrt að meiri tími og peningar er í kosningarbaráttu í dag en þá, a.m.k. mun meiri póstur og fleiri símtöl að ótöldum öllum auglýsingunum.

Monday, April 24, 2006

Hilaríus

Þó svo að yfirskriftin í dag beri með sér að viðfangsefni skrifanna sé fyndið þá er það þvert á móti alvarlegt. Í dag eru tveir mánuðir þar til áætluð fæðing á að eiga sér stað og ekki seinna vænna að fara að velta fyrir sér nöfnum. Talsverð ábyrgð fylgir nafnavali og því verður að vanda valið. Í fyrra var nafnið Hilaríus samþykkt af mannanafnnefnd. Þar sem að þetta var ekki eina nafnið sem mér fannst skrítið ákvað ég að kynna mér á hverju mannanafnanefnd byggir úrskurði sýna. Eftirfarandi fannst á http://www.rettarheimild.is/DomsOgKirkjumala/Mannanafnaskra/Um_nofn

Hvernig má nafnið vera?
Nafnið þarf að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
Það skal ritað í samræmi við íslenskar ritvenjur nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.
Stúlku má aðeins gefa kvenmannsnafn og dreng aðeins karlmannsnafn.


Það sem vakti athygli mína var ....til ama.
Byrjum á nokkrum dæmum um nöfn sen hafnað var árið 2005:
Hafurð, Dúnhaugur, Lusifer, Leif, Hnikarr og Satanía.
Svo nokkrum sem voru samþykkt:
Hilaríus, Snæringu, Ljósálfur, Annas, Dreki, Loðmfjörð, Bíbí, Klementína, Þoka og Súla.

Dæmi nú hver fyrir sig!

Saturday, April 08, 2006

Táraflóð


Viðkvæmni er víst algeng á meðgöngu og á ljosmodir.is segir

Viðkvæmni er afar algeng á meðgöngu og getur komið fram hvenær sem er á meðgöngu. Ástæðan getur verið sambland af mörgum þáttum. Fyrst og fremst eru miklar breytingar á hormónabúskap líkamans á meðgöngu sem geta valdið skapsveiflum. Einnig getur andlegt álag aukið líkurnar á skapsveiflum.

Ég verð að játa að maður hefur ekki farið varhluta af þessu. Í síðustu viku lenti ég tvisvar í táraflóði (vægt til orða tekið) og þurfti ekki mikið til. Í fyrra skiptið var ég að horfa á fæðingu úr þættinum Fyrstu skrefin. Ég missti af þessu í sjónvarpinu og horfði því á þetta á netinu. Ég var búin að heyra að allt hefði gengið vel hjá stelpunni. Það fannst mér nú aldeilis ekki og undir lokin fór ég að hágráta því ég fann svo til með stelpunni sem var að fæða að þurfa að ganga í gegnum þetta. Svo í gærkveldi var verið að sýna "Georg of the jungle returns" að ég held. Ég kem inn í myndina þar sem tengdarmamman er að tala við Georg í símann og það endar með því að ég fer að háskæla því tengdarmanna var svo vond við Georg að hann fór í burtu.

Það er því nokkuð ljóst að þegar farið verið í bíó á næstunni að vanda verður valið þannig að maður endi ekki ekka. Svo var ég að panta miða á Litlu hryllingsbúðina en sem betur fer þekkir maður þá sögu þannig að maður verður undirbúinn þegar Auður fer að borða fólkið.

Sunday, March 26, 2006

Loksins

Eftir að hafa haft í nógu að snúast síðan ég kom heim fann ég mig allt í einu velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera. Það var því ekki annað í stöðunni en að taka fram tölvuna enda ADSL sett upp í síðastliðinni viku og byrja að blogga, en hvar ætti maður svo að byrja eftir að hafa verið í burtu frá blogginu í 3 mánuði?

Við erum allavega flutt í Naustabryggjuna og erum búin að koma okkur nokkuð vel fyrir. Í vikunni munu fyrstu formlegu gestirnir koma og eru það að sjálfsögðu meðlimir Saumavélarinnar. Annars líkar mér nokkuð vel hér, var með efasemdir í byrjuna en það er satt sem þeir segja að heima er best og skiptir þá engu hvar maður á heima.

Núna er ég komin 6 mánuði á leið (sett 24. júní) og allt hefur gengið vel. Að vísu safnast smá bjúgur í líkamann yfir daginn en ekkert til að gera mál útaf. Ég er búin að vera í 2 vikur í meðgöngsundi sem er mjög fínt. Þetta eru nokkrar æfingar í 40 mín. og fínt að fara og gera eitthvað. Félagsskapurinn er fínn þar sem allir eiga eitthvað sameiginlegt og nóg að spjalla um. Þessar með reynslu hafa nóg að segja þeim sem eru með fyrsta barn.

Ég læt þetta duga í bili og vona að einhverjir séu ánægðir með að fá loksins fréttir. Annars er ýmislegt sem maður hefur verið að velta fyrir sér og gefur tilefni til að blogga þannig að næsta blogg mun ekki láta bíða eftir sér í 3 mánuði.